Hvernig þrífur maður Bee's Wrap?

Í framhaldi af kynningu á nýju vegan matvælaörkunum frá Bee's Wrap höfum við fengið fyrirspurnir um hvernig best sé að þrífa arkirnar. Sömu leiðbeiningar eiga við bæði venjulegar Bee's Wrap og vegan útgáfuna. 

Við sjáum þetta gjarnan fyrir okkur í þremur mismunandi stigum sem miðast við hversu óhrein örkin / klúturinn er.

1. Ef örkin hefur verið notuð undir þurrvöru eins og flatkökur, brauð, skonsur eða sambærilegt er oft nóg að strjúka af örkinni með rakri tusku og leggja til þerris.

2. Ef örkin hefur t.d. verið notuð utan um ost, salathaus eða yfir skál með matarafgöngum og eitthvað komið á hana er ágætt að setja hana undir kalda/volga vatnsbunu og láta leka af, jafnvel nudda aðeins með fingrunum. Leggja síðan til þerris.

3. Í verstu tilfellunum, eins og við köllum það, þ.e þegar hún er mjög óhrein setjum við hana gjarnan í vaskinn, bleytum með köldu vatni, setjum smá umhverfisvæna sápu og notum uppþvottaburstann eða lúffu (í staðin fyrir plastsvamp), skrúbbum varlega og leggjum síðan til þerris.

4. Þegar örkinn hefur þornað er gott að brjóta hana saman og geyma á þurrum stað þangað til þig vantar hana aftur.

Glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir að við notum ,,leggja til þerris" og eigum við þá við að leggja til þerris á loftgóðum stað. Ekki er mælt með því að setja örkina á ofn til að láta hana þorna því þá bráðnar vaxið úr klútnum. Með notkun á Bee's Wrap minnkar vaxið smátt og smátt og ef klúturinn er settur á ofn fer það mun hraðar úr en ella - bráðnar - og það styttir líftímann. Alla jafna er talað um að örkin dugi í allt að ár miðað við notkun nokkur skipti í viku.

Ekki er óeðlilegt þó að náttúrulegur litur úr t.d. paprikku, rauðrófu eða rauðlauk smitist yfir í klútinn. Grunnefnið er lífrænt ræktuð bómull og getur tekið lit. Bee's Wrap með dekkra mynstri er þá hentug val til að blettir verði síður sýnilegir. Hún er þó alveg jafn vel nýtileg þó svo að blettir séu komnir í örkina.

Þegar þú telur örkina/klútinn ekki gegna sínu hlutverki lengur má setja hana í moltukassa þar sem hún brotnar niður án þess að skilja eftir nokkur eiturefni enda öll hráefni í Bee's Wrap lífræn og náttúruleg. Við höfum sett þó nokkrar arkir í moltukassann sem hafa algjörlega brotnað niður.

Það er afskaplega gaman að fylgjast með hvernig fólk er að nota og umgangast Bee's Wrap og eftirfarandi eru nokkur atrið sem vert er að benda á. Þetta eru reynslusögur frá okkur og öðrum.

  • Ekki leggja örkina til þerris yfir kranan og skrúfa svo frá heitu vatni. Þú munnt sjá vaxlag á krananum. (Sönn saga frá okkur).
  • Ekki setja örkina í uppþvottavél.
  • Ekki nota of heitt vatn á örkina til að þrífa, við það getur vaxið hlaupið í kekki á örkinni og hún verður ókræsileg til notkunnar. Vel getur verið að hægt sé að bjarga örkinni með því að leggja hana á bökunarpappír og inn í volgan ofn í smá stund til að bræða vaxið aftur, en við höfum ekki prófað það og getum því ekki sagt til um hvort það virki.
  • Útskýra vel fyrir fjölskyldumeðlimum hvað Bee's Wrap er, í staðin fyrir hvað, til hvers og hvernig á að nota hana. Þær eru nefnilega þó nokkrar sögurnar sem við höfum heyrt af fólki sem hefur ekki vitað hvað Bee's Wrap er og einfaldlega hent örkinni eftir að hafa tekið hana utan af einhverjum matvælum.

Gangi þér vel að nota Bee's Wrap matvæla örkina þína / klútinn og um leið að minnka notkun á einnota plasti.

 


Eldri færslur Yngri færslur