UM MISTUR

Við sem göngum um á þessari jörð vitum mörg hver að síðasta árhundrað höfum við gengið svo hart að Jörðinni að ekki er víst að henni sé viðbjargandi. Eða öllu heldur, hvort mannkyninu sé viðbjargandi. Gengdarlaus neysla, sóun og rusl sem felst að miklu leyti í notkun á einnota umbúðum hleðst upp hraðar en við höfum tök á að endurvinna. Endurvinnsla hverskonar og notkun á margnota hlutum ásamt náttúruvernd, t.d. á okkar fallega landi hefur til fjölda ára verið brennandi áhugamál hér á bæ.  Sem betur fer fjölgar þeim stöðug sem verða æ meðvitaðri um umhverfismál og þess vegna höfum við nú smátt og smátt bætt við vöruúrval okkar á ýmist endurunnum eða margnota vörum sem margir hverjir nota daglega. Með því viljum við hjálpa til við að minnka sóun, rusl og drasl.

Við hófum samt starfsemina með því að endurvinna pappír og vörubretti og framleiddum og framleiðum bæði minnis-, og gestabækur ásamt myndum. Bæði bækurnar og myndirnar hafa verið til sölu í ýmsum ferðamannaverslunum þar sem umhverfisþenkjandi ferðamenn hafa valið að kaupa minjagripi úr endurunnum hráefnum. Fyrir það erum við innilega þakklát, því segja má að pappírinn og timbrið hafi lagt grunninn að því sem Mistur er í dag en hægt og rólega höfum við bætt við vöruúrvalið, allt eftir efnum og aðstæðum. 

Ég heiti Þórunn Björk og er mikil áhugamanneskja um minni sóun, verndun jarðar og handverk ýmiskonar. Í nokkur ár hef ég einnig haldið úti bloggi undir heitinu Græni froskurinn og set þar stundum inn greinar er tengjast minni sóun, allskonar endurvinnslu og umhverfispælingum. Kannski finnur þú þar eitthvað sem höfðar til þín. 

Frá því að ég man fyrst eftir mér hef ég verið að skapa eitthvað og helst að búa til eitthvað úr hráefni sem öðrum hugnaðist ekki og var hreinlega á leiðinni í ruslið. Væntanlega er öfgafyllsta dæmið um það hvernig vinkonurnar sáu mig og mínar endurvinnslupælingar þegar æskuvinkona mín var að roðrífa fisk fyrir mörgum árum síðan. Hún tók upp roðið þegar hún var búin og hugsaði ,,skyldi Þórunn geta nýtt þetta eitthvað“.

Nokkrum árum síðar, eða árið 2002 var það svo einmitt roð sem varð fyrir valinu í gestabók sem útbúin var fyrir eitt fermingarbarnið í fjölskyldunni, ásamt endurunnum pappír. Síðan hafa öll börnin - og fleiri, fengið handgerða gestabók í fermingargjöf úr endurunnum pappír... já, og roði.

Bækurnar vöktu mikla eftirtekt fyrir frumlegheit, hráefnisval og lögun og því var hafist handa við að framleiða gestabækur úr endurunnum pappír, já og roði. Vörulínan hefur aðeins bætt við sig og telur nú þrjár stærðir af bókum og tvær tegundir af myndum. Hráefnið endurvinnum við. Já, ég sagði við. Gleymdi víst að kynna bóndann minn sem leggur iðulega til hjálpahönd, hann Kristján. Við endurvinnum sem sagt bæði pappír sem prýðir kápur bókanna og viðarrammana í myndunum, en í rammana notum við vörubretti sem fá þannig framlengda lífdaga í öðru formi. Bæði bækurnar og myndirnar höfða mikið til erlendra ferðamanna og þeirra sem þora að vera öðruvísi og leiða hugann að jörðinni við val á vörum.

Ekki hika við að vera í bandi ef þú heldur að við getum gert eitthvað fyrir þig.