Mistur er flutt að heiman

Það kom að því að yngsta barnið flytti að heiman og bara ný orðið sjö ára. Mistrið okkar var einfaldlega búið að fylla upp í öll skúmaskot og staðan var hreinskilningslega sagt, orðin sú að við vorum hætt að finna vörurnar okkar, þurftum að draga inn magann (sem er samt ekki endilega slæmt) þegar við vorum að taka saman pantanir og sýnar allskonar aðrar hundakúnstir til að klára verkefni í því rými sem við höfðum. Eða eins og einn góður sagði þegar hann frétti af flutningunum; ..Geggjað, enda var orðið sjúklega þröngt hjá þér". En mikið er okkur samt búið að líða vel í skúrnum sem við höfum verið svo heppin að geta notað síðustu ár.

En nú taka við nýjir tímar því við erum búin að koma okkur fyrir í dásamlega björtu, rúmgóðu og fallegu rými á Gylfaflöt 5 í Grafarvoginum. Já, við ákváðum að halda ,,Gimsteininum í Grafarvoginum" (eins og einhver sagði hér um árið og maður gleymir ekki fallegum orðum sem sögð eru um börnin manns) í Grafarvoginum. Mistur á Gylfaflöt 5

Á Gylfaflöt 5 má finna önnur stórfyrirtæki eins og Mistur og er kannski fremst að nefna að Sorpa er þar með skrifstofur sínar og þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar ,,Miðgarð". Keyrt er upp með húsinu hægra megin og þar erum við í endarými og gengið inn um næst innstu dyrnar.

Við þessa flutninga breytist ýmislegt eins og við er að búast og er þá kannski fyrst og fremst að nefna viðveru okkar á staðnum. Þegar búið er að klippa á naflastrenginn lengist óneytanlega á milli móður og barns og því ekki hægt að gera ráð fyrir að einhver sé alltaf til staðar ef sækja á pantanir úr vefverslun. Við ætlum að fikra okkur aðeins áfram með þetta og til að byrja með verður hægt að koma og sækja pantanir á milli kl. 15-16 mánudaga - fimmtudag á nýja staðinn. En að sjálfsögðu, eins og áður er hægt að athuga hvort við verðum við á öðrum tíma með því að hringja í síma 861-1790 eða senda okkur tölvupóst á mistur@mistur.is

Við erum ekki að opna verslun því vörurnar okkar fást í frábærum verslunum og sölustöðum út um allt land, enda rímar það alveg við markmið okkar sem er að koma umhverfisvænum valkostum sem næst neytendum.

Við taka spennandi tímar hér hjá okkur í Mistur og nýtt rými býður upp á svo fjölmarga möguleika að við vöknum full tilhlökkunar hvern einasta dag.


Eldri færslur Yngri færslur