Um daginn fengum við skemmtileg skilaboð í gegnum Facebook síðuna okkar. Þau voru frá nokkrum stelpum í Árbæjarskóla, þeim Kötlu, Katrínu og Lóu sem voru að undirbúa lokaverkefni í náttúrufræðiáfanga. Plastið var tekið fyrir og þær tóku þann pól í hæðina að stofna plastlausa verslunarkeðju hér á Íslandi. Mjög þarft verkefni og þarna kynntu þær ýmsa valkosti sem fólk hefur í dag til að minnka plastnotkun. Eins og þær sögðu í skilaboðunum þá komu þessir valkostir allir frá Mistur; Uppþvottaburstar, samlokupokar, Bee's wrap og tannburstar svo eitthvað sé nefnt en þetta eru einmitt svo auðveld fyrstu skref í að skipta út plasti. Þær áttu von á um 100 manns og vonandi gekk það eftir. Eftir viðburðinn sögðu þær að fólk hefði verið mjög áhugasamt og mesta athygli hefði Bee's wrappið (enda algjör snilld að okkar mati) og tannburstarnir fengið.
Frábært verkefni hjá þeim stöllum og þarna hafa þær pottþétt náð að sá nokkrum fræjum í átt að plast- og ruslminni framtíð.
Unga fólkið okkar er greinilega mikið að spá í þessa hluti og það er einstaklega frábært - framtíðin er björt með svona jákvætt þenkjandi einstaklinga.
Okkar bestu þakkir stelpur og gangi ykkur allt í haginn.