Umhverfisvænni innpökkun

Það getur stundum verið dálítið erfitt að vilja vera umhverfisvænn en heillast samt mikið af fallegum jólapappír og jólamerkimiðum, pakkaböndum og öðru sem skreytir og gerir jólapakka fallega. Það höfum við reynt á eigin skinni í mörg ár. 

Það er hins vegar vel hægt og meira að segja mjög auðvelt að vera umhverfisvænni þegar kemur að þessum atriðum í kringum jólin. 

Hjá okkur hér í Mistur má finna nokkra hluti sem hjálpa til við að vera umhverfisvænni og má þar nefna margnota umbúðir sem búnar eru til úr endurunnum PET flöskum, jólapakkabönd úr hör og pakkaskraut - tréskífur sem skornar eru niður úr gömlum jólatrjám og má nota á marga vegu.

Á innpökkunarborðinu okkar á Pinterest, hér, er hægt að fá fullt af hugmyndum af fallegum pökkum þar sem notast er við ýmsan efnivið sem gerir hvern pakkann öðrum fallegri. Það skemmtilega er að oftast má finna töluvert af þessum efnivið innan veggja heimilisins og því þarf ekki að hlaupa og kaupa, heldur nota og njóta.

Jóla- pappír, kort, poka, merkispjöld, borða og slaufur má hæglega geyma á milli ára nota aftur og aftur og viljum við hvetja þig til að leiða hugann að því þegar kemur að því að opna pakkana. Þessi hugleiðing kallar fram í hugann minningu um ungan dreng sem ein jólin leit á mömmu sína og spurði; ,,Mamma, ætlarðu að geyma þennan pappír eða má ég rífa hann?"  Í dag geymir þessi ungi maður pappír á milli ára og notar aftur.

Á Græna froskinum, umhverfisblogginu sem væri svo gaman að hafa tíma til að  skrifa meira á, má finna hugmyndir og umfjallanir um endurnýtingu á burðarpokum og jólapappír, pakkaböndum, jólamerkispjöldum og mandarínukössum svo eitthvað sé nefnt.  

Þegar kemur að innpökkun á jólagjöfum eru möguleikarnir endalausir.

Njótum þess að endurnýta. 


Eldri færslur Yngri færslur