Mistur 6 ára!

Ótrúlegt en satt, litla hugarfóstrið er sex ára. Þeir sem fylgst hafa með okkur frá upphafi vita að Mistur hófst sem pínulítið endurvinnsluverkefni þar sem pappír og brettatimbur var endurunnið. Úr pappírnum urðu til minnis- og gestabækur og þegar brettatimbrið kom svo til sögunnar urðu til myndir.

Þessar vörur seldum við svo í ferðamannaverslanir þar sem þær seldust hægt og rólega sem nokkurskonar minnjagripir enda hið formfagra Ísland framan á minnstu minnisbókunum og myndunum. Vinir og vandamenn voru einnig duglegir að styðja okkur með kaupum á vörunum okkar og fyrir það verðum við ævinlega þakklát. Það má því með sanni segja að við höfum byggt okkur upp frá rusli...já og þolinmæði.

Fyrsta vörumerkið sem við tókum svo inn og okkur var treyst fyrir að selja áfram var Bee's Wrap sem við erum búin að vera með frá 2016. Skömmu síðar bættist svo Brush with Bamboo við og smátt og smátt hefur fjöldi vörumerkja aukist á þessum árum. Það verður að segjast eins og er að við höfum verið afskaplega heppin með birgja og vörurnar þeirra, þvílíkar gæðavörur. Og enn eru að bætast við merki, eitt nýtt og afar spennandi kemur inn í næstu viku.

Við siglum þetta rólega og erum ekki að spenna bogan hátt, gerum þetta allt eftir efnum og aðstæðum. Og eins og staðan í heiminum er í dag þá erum við þakklát fyrir að vera ,,bara með þetta heima" og enga yfirbyggingu. Allt endurnýtt eins og okkar er von og vísa. 

Frá því að fyrsta neytendavaran kom í hús hefur það verið markmiðið að koma umhverfisvænum vörum eins nálægt neytendum og unnt er og gefa fólki þann kost að hafa val um umhverfisvæna vöru eða ekki. Í dag má finna vörur frá okkur í 30-40 verslunum víðsvegar um landið.

Í upphafi var einnig draumur að geta styrkt einhver umhverfisverkefni hér heima og í fyrra varð sá draumur að veruleika. Það gerðum við með því að láta 1% af allri sölu renna til Landverndar. Það fannst okkur vel við hæfi því í fyrra varð Landvernd 50 ára og við fimm ára.  Við höldum uppteknum hætti í ár og látum 1% af allri sölu renna til Bláa Hersins sem í ár fagnar 25 árum.

Það gleður okkur gífurlega að verða vitni að þeirri umhverfisvakningu sem átt hefur sér stað á síðustu misserum, það er auðvitað ekkert annað í boði en að snúast á sveif með náttúrunni. Vonandi heldur þessi vakning áfram af auknum þunga, jörðinni, okkur og afkomendum okkar í hag.

Við ætlum að fagna 6 ára afmælinu okkar með því að gefa öllum þeim sem versla hjá okkur það sem eftir lifir af apríl, uppþvottabursta merktan Mistur. Sjálf fáum við okkur kannski bara köku í tilefni dagsins.

Takk fyrir að fylgjast með okkur og versla við okkur - þitt val skiptir máli.

Hafið það gott

Þórunn

 


Eldri færslur Yngri færslur