Handverk úr endurunnu hráefni hefur lengi heillað okkur hér í Mistrinu, enda var grunnurinn að því sem Mistur er í dag lagður með því að endurvinna hráefni.
Það er okkur því sérstakt ánægjuefni að kynna viðbætur við jólavörurnar okkar, íslenskt handverk úr hráefnum sem engin eða lítil not voru fyrir lengur.
Jólapokar
Annars vegar er um að ræða handsaumaða margnota jólapoka sem leysa af hólmi oft á tíðum einnota jólapappír, því eins og margir vita þá er ekki hægt að endurvinna allan jólapappír.
Heiðurinn af þessum jólapokum á Snjólaug Guðrún Sigurjónsdóttir - SOS - en hún hefur gefið gömlum jóladúkum og gardínum nýtt líf, ásamt því að bjarga einmana og eftirliggjandi efnisströngum með því að sauma úr þeim jólapoka í hentugum stærðum. Pokarnir eru úr óþveginni bómull með borða til að loka og fást í fjórum stærðum og þremur litum. Allur frágangur á pokanum er til fyrirmyndar og vonir standa til að þessir pokar leysi af hólmi ófáar jólapappírsrúllurnar næstu árin með því að ganga á milli vina og vandamanna sem hluti af jólagjöfinni.
Jólakúlur
Hins vegar er um að ræða jólaljósakúlur sem listakonan Erla Sigurðardóttir - Agnarögn - hefur verið að mála. Ef grannt er skoðað má sjá að hér eru ljósaperur sem gegna ekki lengur því hlutverki að lýsa upp svartasta skammdegið með birtu sinni. Hlutverk ljósaperanna í dag er hins vegar að veita gleði og birtu í sálina með skemmtilegri nálgun Erlu á hinar ýmsu jólaverur. Perurnar, afsakið - jólakúlurnar, eru í nokkrum stærðum og þær er allar hægt að hengja upp. Eins og gefur að skilja eru engar tvær kúlur eins.
Erla hefur m.a.s. gengið svo langt útbúa varanlega íverustaði fyrir minnstu perurnar til að dvelja í á milli jóla og halda þeim þannig öruggum. Það hefur hún gert með því að endurnýta stauka undan PATCH bambusplástrinum og skreyta. Við leyfum hér einni mynd af því ferli fylgja með.
Þar sem ekki er útlit fyrir að mikið verði um handverksmarkaði í ár er það okkur sönn ánægja að vera með svona vísir að einum slíkum hér á síðunni okkar. Að sjálfsögðu höfum við sérvalið handverkið með tilliti til efnis og handbragðs.
Þess má til gamans geta svona í lokin að við lúrum á fleiri vörum úr endurunnu efni eða fullnýtingu á hráefni sem framleitt er hér heima. Þar má t.d. nefna Flöskupokana úr prentgölluðum fánum og svo fullnýtinguna frá Sápufólkinu á hreindýrafitu. Fita sem áður var urðuð er nú orðin að dýrindis sápu. Reyndar uppseld í augnablikinu en við eigum von á viðbótarsendingu á næstu dögum.