Eru í lagi að nota bambusbollana frá Chic Mic?

Bambus bambusbolli ferðamál kaffibolli Umhverfisvænar gjafir

Hún hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum, umræðan um óhollstu bambusbolla sem verið hefur í gangi undanfarið. Hún hefur allavega ekki farið fram hjá okkur eða viðskiptavinum okkar því frá ykkur höfum við fengið fyrirspurnir um bollana okkar. Vegna þessa höfum við hinkrað við að taka bambusbollana aftur inn því umfram allt viljum við bjóða viðskiptavinum okkar góðar og öruggar vörur.

Nú í febrúar s.l. hittum við framleiðendur Chic Mic bollana og ræddum m.a. þetta mál. Nú erum við með í höndunum vottun þess efnis að bollarnir séu öruggir og langt undir þeim viðmiðunarmörkum sem Evrópusambandið setur um notkun á eldhúsáhöldum úr þessum hráefnum.

Hráefnið í Chic Mic bambusvörunum samanstendur af u.þ.b. 75% bambustrefjum og maíssterkju og til að halda þessu saman er notað u.þ.b. 25% melamín. Löggjafinn hefur sett viðmiðunarreglur um hve mikið magn melamíns sé hættulegt heilsu manna skv. ESB stöðlum 10/20111 og 1935/2004.

Viðmiðunamörkin eru:
• Melamin: Hámark 2,5 mg. skv. stöðlum / Chic mic bollar mælast 0,6 mg.
• Formalín: Hámark 15 mg. skv. stöðum / Chic mic bollar mælast 3,7 mg.

Þessi gildi miðast við leyfilegt magn af smitun á ofangreindum efnum í hvert kíló af mat eða drykk.

TÜV Reinland sem er úttektaraðili á bollunum gerði viðeigandi prófanir og eru þær framkvæmdar þannig að 70° heitt vatn er sett í bollana ásamt 3% af ediksýru (acetic acid) og látið standa í 3x2 klukkustundir ávallt við sama hitastig. Magn melamíns í vökvanum er svo mælt að því loknu. Þó að hér sé aðeins minnst á vatn á það sama við um kaffi beint úr vél og te og aðra heita vökva.
Stiftung Warentest hefur einnig gert úttekt á Chic mic bollunum og gefur þeim  grænt ljós.

Minnum á að ekki má setja bollana í örbylgjuofn en það er í góðu lagi að setja þá í uppþvottavél.

Það er okkur því sönn ánægja að bjóða þessa bolla aftur fullviss um að við séum að bjóða viðskiptavinum okkar bestu og öruggustu bambusbollana sem völ er á.

Chic Mic vörurnar geturðu skoðað með því að smella hér.


Eldri færslur Yngri færslur