Verslum meðvitað - gátlisti

Verslum meðvitað - gátlisti fyrir snjallari neysluvenjur

Hver þekkir ekki að hafa keypt eitthvað af hvatvísi? Skyndiákvarðanir eða “af því bara” innkaup. Hvernig neytirðu skynsamlegra og forðast að kaupa hluti sem þú hefur hvorki not fyrir eða ánægju af til langs tíma litið?

Sofðu aðeins á því.
Eða enn betra, sofðu á því í einhverja daga. Þannig geturðu sett hemil á hvatvísina, hugurinn verður skýrari og þú ert betur í stakk búinn til að taka góða ákvörðun.

Forðastu að versla þegar þú ert niðurdreginn eða í uppnámi.
Hlutir sem þú kaupir til að líða betur í augnablikinu geta síðar orðið að samviskubiti eða kannski finnst þér hluturinn ekki einu sinni áhugaverður lengur þegar þú ert kominn í betra jafnvægi. Hugsaðu um hvort þú ert að nota innkaupin sem meðferð og hvað þú getur gert í staðinn sem er betra fyrir sálina.

Afslættir og tilboð.
Áður en þú verslar hluti á afslætti eða tilboði þá er gott að spyrja sig hvort að þú hafðir áhuga á eða þörf fyrir að kaupa vöruna jafnvel áður en þú sást að það væri afsláttur?

Samfélagsmiðlar.
Það dásamlegt að geta fengið innblástur frá skemmtilegum síðum á samfélagsmiðlum en ef fólkið sem þú fylgist með lætur þér líða eins og þig vanti alltaf eitthvað nýtt, gæti verið gott að draga sig í hlé. Stöðugt áreiti og áminning um eitthvað sem þig gæti mögulega vantað eykur aðeins á löngunina í eitthvað nýtt og hvetur til skyndikaupa. Stundum er bara betra að fara í góðan göngutúr.

Ertu að versla af því þér leiðist?
Ertu að fletta í gegnum síður netverslana eða gera þér ferð til að skoða vörur í verslunum bara af því þér leiðist eða hefurðu raunverulegan tilgang með því? Hvað annað geturðu gert þegar þér leiðist? Hvað finnst þér skemmtilegt að gera?

Hinar þrjár gullnu spurningar.
Þarf ég þetta? Hef ég langtíma ávinning og ánægju af því? Af hverju vil ég þetta? Ef þú hefur skynsamleg svör við þessum þremur spurningum gætu þetta í raun verið sanngjörn og skynsamleg kaup. Auðvitað er það huglægt mat hvers og eins hvað telst sem skynsamlegt en þessar spurningar og hugleiðingar hér fyrir ofan ættu að geta hjálpað þér að taka góða og upplýsta ákvörðun.

LS

Til baka í fréttir