UMBÚÐIRNAR OKKAR

Eitt af aðalmarkmiðum okkar hjá Mistur er að draga úr sóun og nýta það sem til fellur og hvetja aðra í okkar nærumhverfi til að gera slíkt hið sama. Allar þær vörur sem við bjóðum eru því sérstaklega valdar inn og boðnar áfram með þessa sýn að leiðarljósi og hjálpa þannig öðrum að draga úr sóun. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að þær umbúðir sem við notum til að koma vörunum okkar á leiðarendar eru einnig í takt við þessa hugmyndir okkar. Viðskiptavinir okkar eru því oftar en ekki að fá pantanir sínar sendar heim í umbúðapappír eða kössum sem er jafnvel að fara í sína aðra ferð, ef ekki þá þriðju. Vörurnar sem við fáum erlendis frá eru gjarnan í pappkössum og ef tómarúm er í kössunum er yfirleitt fyllt upp með pappír.

Þennan pappír tökum við, strjúkum lauslega yfir og notum svo sem umbúðir. Hentar okkur fullkomlega og okkar umhverfisvænu vörum líka. Í sumum tilfellum höfum við líka búið til litla sæta kassa úr kössum undan morgunkorni og notum svo pappírinn þar utan um. Já, og svo slaufu á allt saman, en ekki hvað.

Við vonum að þeir sem fá vörurnar sínar heim með þessu móti reyni jafnvel að nota þær enn einu sinni, það þætti okkur enn vænna um. Bandið má geyma og nota aftur á ýmislegt og snúa umbúðapappírnum við og nota aftur sem umbúðir síðar.


Eldri færslur Yngri færslur