Sítrónusýra, í hvað notar maður hana?
Sítrónusýra eða sítrussýra er veik lífræn sýra með efnaformúlu C₆H₈O₇. Sítrónusýra er náttúrulegt þráavarnarefni/rotvarnarefni og finnst í sítrusávöxtum, en meira er af henni í sítrónum og límónum heldur en appelsínum og grape. Hana má jafnframt finna í ananas, berjum (þó ekki bláberjum) tómötum og gulrótum m.a.
Sítrónusýra er til margra hluta nytsamleg og sést oftar en ekki sem innihaldslýsing í matvörum, snyrtivörum og hreinlætisvörum.
Sítrónusýran er lyktarlaus, alveg gallsúr eins og nafnið gefur til kynna og gróf eins og sykur.
Við settum hér niður nokkur atrið svona aðeins til að vekja athygli á þessari mögnuðu náttúrulegu vöru.
Í matargerð.
Sítrónusýra er mjög mikið notuð í hina ýmsu matargerð og má sem dæmi nefna að hún er notuð til að; að súrsa, bragðbæta súpur, rétti og drykki, til vín- og sælgætisgerðar, í krem, í gosdrykki, og nú nýverðir er byrjað að nota hana í kokteila til að ná fram smá sítruskeim.
Í þrif.
Sítrónusýra getur komið í staðin fyrir edik og hentar því vel fyrir þá sem kunna illa við ediklyktina. Hana má nota með góðum árangri til þrifa á hinum ýmsu tækjum eins og kaffivélum og kötlum, uppþvotta- og þvottavél, sem teppahreinsir, sem þvottaefni og uppþvottarefni svo einhver dæmi séu nefnd.
- Sjálf erum við að prófa okkur áfram og höfum notað sítrónusýru sem klósetthreinsi sem dæmi. Svona gerum við: Setjum þrjár matskeiðar af sítrónusýru í vatnsglas og fyllum með volgu vatni og látum sýruna leysast upp. Hellum svo í salernisskálina og látum standa yfir nótt. Sýran vinnur á óhreinindum yfir nóttina og um morgunin er skálin skrúbbuð með klósettburstanum. Kemur á óvart hve vel þetta virkar og dugar álíka lengi ef ekki lengur en hefðbundinn wc hreinsir sem við vitum ekkert hvað er í.
Í garðyrkju.
Sítrónusýra er stundum notuð í garðyrkju og þá helst til að breyta sýrustigi jarðvegs fyrir plöntur og blóm sem þurfa annað sýrustig en þeim er boðið uppá. Við höfum séð ótrúlega breytingu á einni viku á hortensíu sem vökvuð var með vatnsblandaðri sítrónusýru. Eins hefur sítrónusýra verið notuð sem illgresiseyðir en þá þarf að vanda sig sérstaklega og passa að sýran fari ekki á aðrar plöntur en ætlunin er að losna við.
Í snyrtivörur
Margar snyrtivörur innihalda sítrónusýrur og gengur sítrónusýran þá jafnan undir heitinu AHA – Alpha Hydroxy Acid og hefur þann tilgang að skrúbba (exfoiliate) húðina, jafna húðlit og misfellur í húðinni. Sítrónusýra getur verið góð sem líkamsskrúbbur og hentað sérstaklega vel fyrir feita húð. Þeir sem hafa viðkvæma húð, exem eða aðra húðkvilla er þó ráðlagt af fara varlega í notkun á sítrónusýru því hún getur ert viðkvæma húð.
Sítrónusýra er einnig mjög oft notuð að þeim sem gera sínar snyrtivörur sjálfir og má þar sem dæmi nefna; rakakrem, freyðandi baðsalt og bombur, sápur og kroppakrem (bodylotion), varasalva, svitakrem og hrukkukrem svo eitthvað sé nefnt.
Við hvetjum alla sem ætla sér að nota sítrónu sýru að leita sér enn frekari upplýsinga áður en þeir fara af stað og vekjum athygli á að þrátt fyrir allt þá er þetta sýra þó að hún sé mild og ber að umgangast hana af varúð.
Sítrónusýran fra EcoLiving kemur í 750 gr. pokum sem hægt er að loka aftur. Ytra byrðið á pokunum er úr kraftpappír og innra byrði úr niðurbrjótanlegu efni og pokinn má fara í heimamoltugerð þegar búið er að tæma hann.