Ef þú ert eitthvað svipað þenkjandi og sú sem þetta skrifar þá er mjög líklegt að þú hafir ekki nokkra einustu trú á að pappírspokar séu hentugir fyrir garðaúrgang. Oft er það nefnilega þannig að maður þarf að prófa sjálfur, jafnvel nokkuð oft áður en maður lætur sannfærast.
Nú er óformlegu prófunartímabili á millistærðinni af pappírspokunum frá EcoLiving lokið hér á bæ og niðurstaðan er einstaklega ánægjuleg, þeir svínvirka þessir …skotar.
Í fyrrasumar var ákveðið að taka á þeim svona eins og maður gerði (taktu eftir – þátíð) með svörtu ruslapokana. Pappírspokunum var því dröslað um garðinn og dregnir á milli beða, því ef maður ætlar að prófa þá í alvöru þá verður maður að nota þá eins og hina.
Í fyrstu bjóst ég við að þeir myndu nú einfaldlega rifna þegar tekið væri á þeim og þeir dregnir áfram. Það gerðist ekki. Svo gerði ég ráð fyrir að botninn yrði eftir úti á miðju túni og þar af leiðandi allt það sem ég hafði sett í pokann, það gerðist ekki heldur. Svo seinnipart dags fór að rigna og þá hugsaði ég með mér, ojæja, ég er þá allavega búin að prófa þá. En viti menn pokarnir stóðu af sér rigninguna og komust á áfangastað, alla leið í endurvinnslustöð. Og sumir m.a.s. aftur heim og voru notaðir aftur. Nú hugsa eflaust einhverjir (ég gerði það allavega); já en greinar – stingast þær ekki í gegn og rífa pokann? Jú, þær geta gert það og gera, alveg eins og í öllum öðrum pokum. Það sem kom hins vegar á óvart var að ekki rifnaði út úr gatinu að ráði.
Nú í sumar var svo alvöru tilraun númer tvö. Ég hafði nú ætlað að taka stærstu pokana, þessa sem rúma 240 ltr. en hafið í misgripum tekið 75 ltr. pappírspokana. Sem betur fer, því þeir eru svo fullkomlega passlega stórir.
Auðvelt að halda á þeim og lyfta upp í bíl og sturta úr þeim, já og veistu hvað? – nota aftur. ;)
Pokarnir, sem framleiddir eru í Evrópu, eru úr tvöföldum kraftpappír, búnir til úr afskurði og afgangs timburmassa. Þeir eru extra sterkir með flötum botni þannig að þeir standa vel. Þeir eru jafnframt jarðgeranlegir í heimamoltu og geta þar að auki verið ágætis stoðefni í moltuna.
Stærð pokans er 80 cm. á hæð, 60 á breidd og 25 cm hliðarbrot. Fimm pokar eru í búnti og þú færð svona poka á eftirtöldum stöðum: Fjarðarkaup, Garðheimum, Melabúðinni, Menu/Sambúðinni, Vistvænu búðinni á Akureyri og að sjálfsögðu hér hjá okkur.
Auk 75 ltr. pokanna eru jafnframt eru til 10 ltr. pappírspokar sem passa afskaplega vel i moltutunnuna okkar sem er í eldhúsinu og 240 ltr. sem hugsaðir eru í stóru grænu tunnurnar fyrir lífrænan úrgang.
Enn ein leiðin til að draga úr plastnotkun ;)