Almenn flokkun á lífrænum úrgangi er um það bil að verða að veruleika og möguleikarnir til að halda heimilisúrgangi til haga eru þó nokkir. Við höfum prófað nokkrar leiðir og notkunin á þessari tunnu hefur reynst okkur allra best.
Moltutunnan, sem er úr stáli, rúmar fjóra lítra og er með þægilegu handfangi. Í lokinu sem einnig er úr stáli, eru tvær kolasíur sem koma í veg fyrir að lykt berist úr tunnunni. Moltutunnuna og lokið má hvorttveggja setja í uppþvottavél.
Einfalt er að fjarlægja kolasíurnar úr lokinu og þrífa. Við höfum margsinnis þvegið þær í heitu sápuvatni, kreist mest allt vatnið úr þeim og lagt svo til þerris, en þær eru fljótar að þorna. Þó svo að mælt sé með að skipta um síu á 6-12 mánaða fresti hefur góð umhirða lengt þennan tíma hjá okkur og við ekki skipt fyrr en eftir mun lengri tíma eða þangað til sían var byrjuð að molna niður.
Hægt er að kaupa kolasíurnar sér þegar þær sem fylgja tunnunni eru búnar.
Áður en við tókum þessa stáltunnu í notkun höfðum við notast við ýmist plastílát með loki - gjarnan svona ferkönntuð nammiplastbox sem er um að gera að áframnýta en því miður vildi lyktin af matarafgöngum festast í plastinu og loða þar við, alveg sama hversu vel hún var þvegin, sett í uppþvottavél, klóruð, sápuvatn látið standa í, edik, matarsódi eða hvaða önnur aðferð okkur datt í hug.
Lyktin festist ekki í stálinu og því þarf ekkert að hafa áhyggjur af því.
Við höfum prófað að máta 10 ltr. pappírspokana frá EcoLiving í tunnuna og þeir passa vel. Þar sem tunnan er hins vegar rúmgóð þá getum við safnað lengi í hana. Við sjáum því fyrir okkur þegar ferlið fer í gang að við munum bregða á það ráð að safna í tunnuna án poka og hella síðan úr tunnunni í níðsterkan EcoLiving pappírspokann og fara svo með í stóru tunnuna. Pappírspokinn eru úr þykkum og góðum húðuðum pappír og heldur vel en miðað við hvað við söfnum lengi í tunnuna er ekki víst að pokinn haldi vökva svo lengi, því óneitanlega safnast einhver vökvi fyrir í tunnunni.
Þeir sem eru með moltukassa geta hins vegar bara skottast beint með tunnuna út og geta alveg sleppt pokanum.
Svo má nú alveg bæta því við svona í lokin að þessi tunna er nú bara ansi huggulega á að líta.
_____________________________________________________
Þeir sem hafa áhuga á að gera sína eigin moltu gætu haft gagn af eftirfarandi tveimur bloggfærslum sem við skrifuðum hér um árið.
Um moltu / heimajarðgerðina okkar.