Mistur styrkir Bláa herinn 2020

Í fyrra í tilefni af 50 ára afmælis Landverndar og 5 ára afmælis okkar hér í Mistur létum við loks fimm ára gamlan draum rætast, en það var að styrkja starfsemi Landverndar. Allt árið í fyrra lögðum við til hliðar 1% af allri sölu sem renna átti til Landverndar. Við óskuðum eftir því að styrkurinn myndi renna í þágu Hálendis Íslands en þangað förum við frekar mikið á sumrin og sjáum vel hversu mikla vernd þetta annars stórbrotna og viðkvæma landssvæði þarfnast. 

Tilfinninginn sem fylgdi þessum styrk var góð og því var ákveðið að halda áfram á þessari braut þetta árið og hugurinn leitaði sterkt til Bláa hersins sem fagnar 25 ára starfsemi þetta árið. Því varð úr að póstur var sendur á forsvarsmann Bláa hersins og athugað hvort eitthvað stæði í vegi fyrir því að við myndum styrkja þá  um 1% af allri sölu. Það stóð ekki á svörum og styrkurinn þeginn með kærleik. Svona móttökur ylja. Með svarinu fylgdi einnig ársskýrsla samtakanna og greinilegt að þar er ekki setið auðum höndum og mikið af frábærum sjálfboðaliðum sem leggja verkefninu lið. 

Lágum hér smá brot úr skýrslunni fylgja þar sem fram koma helstu tölur frá upphafi starfsemi þeirra. 

,,Hreinsunarverkefni ársins voru yfir 40 á landsvísu. Yfir 1000 manns komu í öll verkefnin þar sem Blái herinn var að verki á einn eða annan hátt. 50 tonn voru hreinsuð á árinu úr öllum þessum verkefnum og vinnustundirnar voru 5000.
Frá stofnun Bláa hersins hafa 9600 manns hreinsað yfir 1540 tonn og unnið 76.000 vinnustundir fyrir land og þjóð með bros á vör sem sjálfboðaliðar."

Við búum á eyju sem er umlukin sjó og hreinsun strandlengjunnar gríðarlegt verkefni. Sjórinn er hættur að taka við (eins og fleiri) og farinn að skila til baka því sem við héldum einu sinni að myndi hverfa með því að henda í sjóinn.

Það hlýtur að vera markmið út af fyrir sig að svona starfsemi eins og sú sem Blái herinn sinnir þurfi ekki að vera til og því segjum við takk Blái herinn fyrir ykkar óeigingjarna starf og takk kæru viðskiptavinir fyrir að kaupa vörurnar okkar.

kær kveðja

Þórunn

Til baka í fréttir