Þeir sem fylgst hafa með okkur í gegnum tíðina vita margir hverjir að leiðir okkar í Mistur og Kubuneh verslun / Allir skipta máli hafa lengi legið saman. Ekki hvað síst vegna umhverfismála.
Kubuneh - allir skipta máli er góðgerðarfélag sem heldur úti heilsugæslu í litlu þorpi í Gambiu, þorpi sem heitir einmitt Kubuneh. Fjármögnun þessa góðgerðafélags kemur frá hringrásarversluninni Kubuneh í Vestmannaeyjum. Þóra Hrönn Sigurjónsdóttir drífur verslunina og starfsemina í félaginu áfram af miklum eldmóð og nýtur til þess stuðnings fjölda einstaklinga sem vinna þar í sjálfboðavinnu. Í versluninni er hægt að fá mikið og breytt úrval af notuðum fatnaði og fylgihlutum og gaman að geta þess að í fyrra - 2024 - fengu hvorki meira né minna en 18.842 flíkur framhaldslíf!
Í verslun Kubuneh í Vestmannaeyjum er jafnframt hægt að nálgast ýmsar umhverfisvænar og góðar vörur frá okkur og má þar m.a. nefna Friendly sápur, Nuud og uppþvottabursta. í Mistur á Stórhöfða 33, 110 Reykjavík er hægt að fá einstaklega gott te (hibskus, engifer og piparmintu) sem á rætur sínar að rekja þangað út, til Gambiu þ.e.a.s ekki Vestmannaeyja. Teið er til bæði í pokum og í lausu og sala á teinu styrkir jafnframt frumkvöðlastarf konu sem býr úti í Kubuneh.
Það er því löngu komin tími á að hún Þóra Hrönn, drifkrafturinn á bak við Kubuneh - allir skipta máli poppi upp hjá okkur og það ætlar hún einmitt að gera laugardaginn 11. janúar á milli kl. 10-16 með úrval af fatnaði sem leitar nýrra eigenda. Líklega verður þó mest af kjólum því eins og Þóra sagði þá; ,,er ég hreinlega að drukkna í kjólum" Við höfum trú á að þeir sem þekkja verkefnið sem Þóra stendur fyrir reyni að hjálpa henni í þessari stöðu, renni við og smelli sér á eins og einn kjól ...eða mögulega tvo
Á laugardaginn ætlum við í Mistur, í tilefni dagsins, að bjóða upp á kaldbruggað te beint frá Gambiu. Látum hér til gamans fylgja uppskrift af slíku.
Eftir að við fluttum á Stórhöfða 33 þar sem er nóg pláss (enþá allavega) höfum við svigrúm til að taka við ýmsu dóti sem nýst getur í starf Kubuneh í Gambiu og geymt það hjá okkur fram að næstu ferð til Eyja þar sem öllu er pakkað saman og sent út. Hingað til höfum við m.a. fengið til geymslu; ferðatöskur, astmatæki, fótboltaskó og töluvert af hjúkrunarvörum sem annars myndu líkalega enda, þú veist hvar vegna dagsetningar en er þó vel nýtilegt áfram. Eins höfum við gripið með okkur kassa og kassa úr þeim apótekum sem selja vörurnar okkar og eru með útrunna, en nýtilega vöru og komið þeim í farveg. Lyf eru að sjálfsögðu algjörlega undanskilin, en það er svo margt annað sem einnig er með dagsetningu (plástrar, grisjur ofl)
Það er okkur því sönn ánægja að fá Kubuneh loksins í heimsókn til okkar, (lengur en í 20 mín.) næsta laugardag á milli kl. 10-16 og við vonum innilega að þú sjáir þér fært að kíkja við þó ekki sé nema til að smakka teið
Byrjum árið á einhverju umhverfisvænu og góðu sem gefur um leið hlýtt í hjartað.
Sjáumst og munum að ,,Gamalt fyrir þér er nýtt fyrir mér"