Hveitiklíð er hýði af hveitikorninu. Það er lang trefjaríkasti hluti hveitikornsins og er mjög ríkt af B-vítamínum, járni og kalíum. Trefjarnar hjálpa til við meltinguna og stuðla að jafnari blóðsykri og eru líka góðar fyrir hjartaheilsu. Sniðugt er að bæta hveitiklíði út í t.d. hafragrautinn, jógúrtið og í grænmetissúpur, sáldra því yfir salatið og eins er hægt að bæta því út í brauðbaksturinn til að auka næringargildið.
Hvað á að borða mikið af hveitiklíði á dag?
Það er mjög einstaklingsbundið og fer eftir hversu fjölbreytt og trefjarík dagleg fæða hvers og eins er, en hver hefur ekki gott af aðeins meiri trefjum í lífið? Góður skammtur gæti verið t.d. tvær teskeiðar einu sinni til þrisvar á dag, eftir þörfum hvers og eins.
Athugið að hveitiklíð inniheldur glúten og hentar þá ekki fyrir einstaklinga sem eru með glútenóþol.
Við birtum hér eina uppskrift að brauði ef einhvern langar að prófa 😊
Innihaldsefni:
1 ½ bolli Smaakt hveitiklíð
3 ½ + 1 bolli hveiti (brauðhveiti)
1 msk þurrger
3 msk Bee&You hrátt hunang
3 msk olía
2 bollar volgt vatn
Salt eftir smekk
Aðferð:
Setjið ¼ bolla volgt vatn, þurrger og hunang í skál og látið bíða í 5 mínútur. Setjið síðan restina af volga vatninu í aðra skál, bætið hveitiklíðinu út í og látið bíða í 5 mínútur. Síðan er gerblöndunni, olíu og 3 ½ bolla af hveiti bætt út í og blandað vel. Deigið mun vera frekar klístrað. Setjið klút yfir skálina og leyfið deiginu að hefast í u.þ.b. klukkustund eða þar til það hefur tvöfaldast að stærð. Notið síðan restina af brauðhveitinu til að hnoða deigið vel. Það á að vera aðeins klístrað en teygjanlegt. Smyrjið brauðform og setjið deigið í, látið bíða í 30 – 45 mínútur. Hitið ofninn í 200°C, setjið formið í ofninn og bakið í 15 mínútur við 200°C, eftir það er hitinn lækkaður í 180°C og brauðið bakað áfram í 20 – 25 mínútur.
Takið brauðið úr ofninum og leyfið því að kólna á grind.
Njótið 😊